Stýrir Manchester United um helgina

Ralf Rangnick er kominn með atvinnuleyfi á Englandi.
Ralf Rangnick er kominn með atvinnuleyfi á Englandi. AFP

Knattspyrnustjórinn Ralf Rangnick er kominn með atvinnuleyfi á Englandi og getur því stýrt Manchester United um helgina þegar liðið tekur á móti Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni á Old Trafford í Manchester.

Rangnick, sem er 63 ára gamall, skrifaði undir samning sem gildir út tímabilið við United á dögunum en hann mun svo taka við ráðgjafahlutverki innan félagsins til næstu tveggja ára þegar samningurinn rennur út næsta sumar.

Michael Carrick, sem hefur stýrt liðinu eftir að Ole Gunnar Solskjær var rekinn um miðjan nóvembermánuð, mun stýra liði United í kvöld þegar það fær Arsenal í heimsókn í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar á Old Trafford í Manchester.

United er sem stendur í tíunda sæti deildarinnar með 18 stig eftir þrettán leiki, 15 stigum minna en topplið Chelsea, en Arsenal er í fimmta sætinu með 23 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert