Útilokar ekki að stýra United til frambúðar

Ralf Rangnick mun stýra Manchester United út keppnistímabilið í það …
Ralf Rangnick mun stýra Manchester United út keppnistímabilið í það minnsta. AFP

Ralf Rangnick, nýráðinn knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester United útilokar ekki að stýra United til frambúðar. Þetta kom fram á hans fyrsta blaðamannafundi sem stjóri liðsins.

Þýski stjórinn, sem er 63 ára gamall, tók við liðinu af Ole Gunnar Solskjær eftir að sá síðarnefndi var rekinn um miðjan nóvembermánuð en Rangnick skrifaði undir samning sem gildir út tímabilið.

Þegar samningur hans rennur út á Old Trafford mun hann taka við ráðgjafahlutverki innan félagsins en hann gæti þó einnig stýrt liðinu á næstu leiktíð.

„Ég geri mér fulla grein fyrir því að félagið leitar nú að nýjum stjóra til þess að taka við liðinu í sumar,“ sagði Rangnick.

„Ef þeir vilja að ég haldi áfram að þjálfa liðið þá munum við setjast niður og ræða málin. Ég mun ekki mæla gegn því að ég verði áfram með liðið í einhvern tíma, það gæti verið góð lausn,“ bætti Rangnick við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert