Verður Íslendingurinn rekinn frá Everton?

Grétar Rafn Steinsson lék 46 A-landsleiki fyrir Ísland þar sem …
Grétar Rafn Steinsson lék 46 A-landsleiki fyrir Ísland þar sem hann skoraði fjögur mörk. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Rafa Benítez, knattspyrnustjóri Everton í ensku úrvalsdeildinni, er sagður vilja losna við landsliðsmanninn fyrrverandi Grétar Rafn Steinsson úr starfi. Það er Football Insider sem greinir frá þessu.

Í morgun bárust fréttir af því að Marcel Brands hefði verið rekinn sem yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu en Grétar Rafn er í dag yfirmaður leikmannakaupa hjá enska félaginu og hefur starfað náið með Brands undanfarin ár.

Benítez, sem tók við stjórnartaumunum hjá Everton í sumar eftir að Carlo Ancelotti lét af störfum, er sagður vilja fá fullt vald yfir leikmannakaupum félagsins en gengi liðsins á leiktíðinni hefur ekki verið gott.

Everton hefur eytt í kringum 300 milljónum punda í nýja leikmenn frá því Brands tók við sem yfirmaður knattspyrnumála árið 2018 en árangurinn hefur látið á sér standa.

Grétar Rafn var ráðinn yfirnjósnari félagsins í Evrópu í desember árið 2018 en var hækkaður í tign innan félagsins í október 2019 og tók þá við sem yfirmaður leikmannakaupa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert