Henta ekki leikstíl Rangnick

Sóknarleikurinn er ekki sterkasta hlið Aarons Wan-Bissaka.
Sóknarleikurinn er ekki sterkasta hlið Aarons Wan-Bissaka. AFP

Rio Ferdinand, fyrrverandi varnarmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, telur að bakverðir United, þeir Aaron Wan-Bissaka og Luke Shaw, muni þurfa að berjast fyrir sæti sínu í byrjunarliði United það sem eftir lifir leiktíðar.

Þjóðverjinn Ralf Rangnick tók við stjórnartaumunum hjá félaginu á dögunum og stýrði sínum fyrsta leik gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni á Old Trafford um nýliðna helgi þar sem United fagnaði 1:0-sigri.

Wan-Bissaka var á meðal varamanna United í leiknum og kom ekkert við sögu en Shaw er að glíma við meiðsli og var ekki í leikmannahóp liðsins.

„Það verður mjög erfitt fyrir bæði Wan-Bissaka og Shaw að vinna sér inn sæti í liðinu á nýjan leik,“ sagði Ferdinand í hlaðvarpsþættinum FIVE.

„Stærsta vandamálið þeirra er að þeir virðast ekki henta leikstílnum sem Rangnick vill spila. Nýji stjórinn vill sjá bakverðina sína halda breidd og keyra upp kantana.

Sóknarleikurinn hefur aldrei verið sterkasta hlið Wan-Bissaka og ég sé það alveg fyrir mér að hann sé ekki að fara spila mikið eftir áramót ef ég á að vera alveg hreinskilinn,“ bætti Ferdinand við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert