Dýrasti leikmaður í sögu Liverpool?

Jude Bellingham er eftirsóttur af stærstu liðum Englands.
Jude Bellingham er eftirsóttur af stærstu liðum Englands. AFP

Enska knattspyrnufélagið Liverpool leiðir kapphlaupið um Jude Bellingham, miðjumann Borussia Dortmund í Þýskalandi. Það er Mirror sem greinir frá þessu.

Bellingham, sem er einungis 18 ára gamall, er uppalinn hjá Birmingham en hann gekk til liðs við Dortmund sumarið 2020 og varð um leið dýrasti táningur sögunnar.

Dortmund borgaði 25 milljónir punda fyrir leikmanninn sem hefur skorað sjö mörk og lagt upp önnur þrettán í 68 leikjum fyrir félagið.

Bellingham er samningsbundinn Dortmund til sumarsins 2025 en þýska félagið er sagt tilbúið að selja hann næsta sumar fyrir 90 milljónir punda.

Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, er spenntur fyrir því að vinna með Bellingham en miðjumenn liðsins eru margir komnir yfir þrítugt.

Fari svo að Liverpool kaupi leikmanninn næsta sumar verður hann dýrasti leikmaður í sögu félagsins en varnarmaðurinn Virgil van Dijk er í dag sá dýrasti en hann kostaði 75 milljónir punda í janúar 2018.

mbl.is