Tottenham getur ekki spilað

Átta leikmenn Tottenham hafa greinst með kórónuveiruna síðustu sólarhringana.
Átta leikmenn Tottenham hafa greinst með kórónuveiruna síðustu sólarhringana. AFP

Tottenham getur ekki spilað gegn Rennes frá Frakklandi í Sambandsdeild karla í knattspyrnu annað kvöld vegna kórónuveirusmita hjá enska  félaginu.

Leikurinn átti að fara fram í London og hefur gríðarlega þýðingu fyrir Tottenham sem þarf á sigri að halda til að tryggja sér sæti í sextán liða úrslitum keppninnar.

Alls eru þrettán leikmenn og starfsfólk félagsins í einangrun eftir að hafa  greinst með smit og æfingasvæði aðalliðs Tottenham var lokað í dag.

„Við erum í viðræðum við UEFA og greinum frá því hvað verður um leikinn þegar það liggur fyrir," sagði í tilkynningu sem Tottenham birti í kvöld.

Tottenham á að mæta Brighton í úrvalsdeildinni á sunnudaginn og að sögn BBC er verið að skoða hvort fresta þurfi þeim leik einnig. 

mbl.is