Við erum hræddir

Alls eru átta leikmenn Tottenham smitaðir af kórónuveirunni og fimm …
Alls eru átta leikmenn Tottenham smitaðir af kórónuveirunni og fimm úr starfsliði félagsins. AFP

Átta leikmenn enska knattspyrnufélagsins Tottenham hafa greinst með kórónuveiruna á undanförnum dögum. Þetta staðfesti Antonio Conte, stjóri liðsins, á fjarfundi með fjölmiðlamönnum í dag.

Þá eru fimm starfsmenn félagsins smitaðir af veirunni en í gær bárust fréttir af því að sex leikmenn liðsins væru smitaðir af veirunni og tveir úr starfsliðinu.

Tottenham mætir Rennes í lokaleik sínum í G-riðli Sambandsdeildar UEFA á morgun en liðið þarf á sigri að halda til þess að gulltryggja sig áfram í sextán liða úrslit keppninnar. UEFA hefur staðfest að leikurinn muni fara fram.

„Staðan er alvarleg og smitunum fjölgar,“ sagði Conte á blaðamannafundinum.

„Munu fleiri greinast á morgun? Ég kannski? Ég vil tala um fótbolta á þessum fundum en við erum satt best að segja hræddir því við eigum jú allir fjölskyldur.

Við þurfum að æfa fyrir þessa leiki og svo förum við kannski smitaðir heim til fjölskyldunnar. Einn af þeim leikmönnum sem átti að byrja á morgun greindist í dag,“ sagði Conte.

Tottenham á að mæta Brighton í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn kemur en forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar gætu nú frestað leiknum í ljósi stöðunnar hjá Tottneham.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert