Bjarni: Ótrúlegt að Arsenal hafi ekki fengið víti

Í Vellinum á Símanum Sport í kvöld var farið yfir það þegar Arsenal vildi fá vítaspyrnu í leik sínum gegn Englandsmeisturum Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Þá féll Norðmaðurinn Martin Ödegaard við í teignum eftir viðskipti við Ederson, markvörð Man. City.

Þeir Bjarni Þór Viðarsson sparkspekingur, Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri enska boltans á Símanum Sport, og Eiður Smári Guðjohnsen sparkspekingur voru allir sammála um að Arsenal hefði átt að fá vítaspyrnu í þessu tilviki þar sem endursýningar tækju af allan vafa um að Ederson hefði farið beint í fótinn á Ödegaard.

„Martin Ödegaard gerir þetta frábærlega, hann er bara klókur og lætur löppina þarna á milli. Þetta er bara víti og það er ótrúlegt að þeir fái ekki víti,“ sagði Bjarni Þór.

Eiður Smári tók í sama streng. „Þetta er 100 prósent víti. Það sem pirrar mann mest, og ég skil stuðningsmenn Arsenal að vera pirraðir, af hverju fáum við tvö svona stór atvik og það er bara farið í skjáinn í annað skiptið?“ velti hann fyrir sér.

Þar vísaði Eiður Smári til þess að Man. City fékk dæmda vítaspyrnu eftir að Stuart Attwell dómari skoðaði VAR-skjáinn á meðan atvikið þar sem Ödegaard var felldur innan vítateigs var ekkert skoðað.

Umræður Bjarna Þórs, Tómasar Þórs og Eiðs Smára um vítaspyrnuna sem var ekki dæmd og þá sem var dæmd má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert