Eiður: Þetta viðtal var algjör þvæla

Málefni belgíska framherjans Romelus Lukakus voru rædd í Vellinum á Símanum Sport í kvöld, en hann var tekinn út úr leikmannahópi Chelsea fyrir stórleikinn gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í dag eftir að umdeilt viðtal við hann birtist á Sky Italia á dögunum.

Í viðtalinu, sem var tekið í upphafi desember en birt í lok mánaðarins, sagðist Lukaku ekki sáttur við stöðu sína hjá félaginu og gagnrýndi til að mynda taktík Thomas Tuchels, knattspyrnustjóra Chelsea.

Auk þess sagðist hann ekki hafa viljað fara frá Ítalíumeisturum Inter í sumar og að hann myndi gjarna vilja spila fyrir félagið aftur.

Eiður Smári Guðjohnsen, knattspyrnusérfræðingur hjá Vellinum, sparaði ekki stóru orðin í garð Lukakus. „Fyrir það fyrsta er þetta viðtal, allavega eins og það kemur manni fyrir sjónir, algjör þvæla. Hvað ertu að spá? Og hvað þá á þessum tímapunkti?

Hvenær sem þetta viðtal var gefið, hvort sem það var í byrjun desember eða lok desember, á það ekki að eiga sér stað. Mér finnst það vanvirðing við félagið, vanvirðing við liðsfélaga og vanvirðing í garð þinnar stöðu innan félagins.

Þú ert keyptur fyrir 100 milljónir punda og þú lætur eitthvað svona út úr þér af því að þú vaknaðir í vondu skapi eða í fýlu? Það var nánast eins og hann væri að reyna að væla sig aftur til Ítalíu,“ sagði hann í þættinum.

Umræður Eiðs Smára, Bjarna Þórs Viðarssonar knattspyrnusérfræðings og Tómasar Þórs Þórðarsonar, ritstjóra enska boltans á Símanum Sport, um Lukaku má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

mbl.is