Tuchel: Rautt spjald á Mané

Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, var ekki ánægður með þá ákvörðun Anthonys Taylors, dómara leiks liðsins og Liverpool á Stamford Bridge í ensku úrvalsdeildinni í dag, að gefa Sadio Mané ekki beint rautt spjald eftir að hann gaf César Azpilicueta olnbogaskot eldsnemma leiks.

Leikurinn var flautaður á, löng sending barst í átt að Mané, sem slæmdi olnboganum í andlit Azpilicuetas eftir um sex sekúndna leik. Taylor gaf Mané gult spjald fyrir vikið og var atvikið skoðað nánar í VAR en ekki þótti ástæða til að breyta lit spjaldsins.

Tuchel var afar ósáttur við það og eftir leik minntist hann þess þegar Reece James fékk beint rautt spjald í fyrri leik liðanna fyrir að handleika knöttinn á marklínu, viljandi að mati Taylors, sem dæmdi einnig þann leik á Anfield, en óviljandi að mati Tuchels.

„Ef þú manst eftir fyrri leiknum þegar sami dómari var að dæma og hversu fljótur hann var að gefa okkur rautt spjald, þú manst kannski eftir því að ég sagði: „Af hverju ekki að taka sér tíma til þess að skoða þetta?“

Ég er ekki aðdáandi þess að gefa rauð spjöld snemma leiks og mér er illa við að segja það af því að ég elska Mané, hann ætti alltaf að vera á vellinum því hann er indæll gaur og toppleikmaður, en þetta er rautt spjald.

Mér þykir það leitt en þetta er rautt spjald. Olnboginn á honum fer í andlitið og það skiptir ekki máli hvort þú gerir þetta eftir 20 sekúndur eða 20 mínútur,“ sagði Tuchel.

Hann var annars ánægður með frábæran leik sem lauk með 2:2-jafntefli eftir að Liverpool hafði komist 0:2 yfir.

Viðtalið við Tuchel í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert