Völlurinn: Appelsínugult spjald á Mané

Sadio Mané gaf César Azpilicueta olnbogaskot strax í upphafi leiks Chelsea og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í gær.

Thomas Tuchel knattspyrnustjóri sagði eftir leikinn, sem lauk með 2:2-jafntefli, að Mané hefði átt að fá beint rautt spjald fyrir olnbogaskotið.

Þegar atvikið var rætt í Vellinum á Símanum Sport í gærkvöldi voru þeir Eiður Smári Guðjohnsen sparkspekingur, Bjarni Þór Viðarsson sparkspekingur og Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri enska boltans á sjónvarpsstöðinni, sammála um að þetta hefði staðið tæpt en það hefði verið rétt hjá Anthony Taylor dómara að vísa Mané ekki af velli.

„Við Eiður ræddum þetta aðeins, þetta er alveg á mörkunum,“ sagði Bjarni Þór.

„Þetta er appelsínugult. Hugsanlega af því að þetta gerist svo snemma leiks er þetta ekki beint rautt,“ bætti Eiður Smári við.

„Dómarinn vildi ekkert vera að eyðileggja þennan leik fyrir þetta,“ sagði Tómas Þór.

„Sem betur fer,“ svaraði Eiður Smári.

„Algjörlega. En síðan er auðvitað hægt að vera svekktur ef þú ert Chelsea-maður,“ sagði Tómas Þór þá.

Umræður þremenninganna í Vellinum í gærkvöldi um mögulegt rautt spjald á Mané og einnig Mason Mount, leikmann Chelsea, má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

mbl.is