C-deildarliðið sló Newcastle úr leik

Leikmenn Cambridge fagna vel og innilega.
Leikmenn Cambridge fagna vel og innilega. AFP

C-deildarliðið Cambridge United gerði sér lítið fyrir og sló úrvalsdeildarliðið Newcastle úr leik í 3. umferð enska bikarsins í fótbolta er liðið heimsótti St James' Park og fagnaði 1:0-sigri.

Joe Ironside skoraði sigurmarkið á 56. mínútu gegn Newcastle sem stillti upp sterku liði. Enski landsliðsmaðurinn Kieran Trippier kom beint inn í byrjunarliðið og lék allan leikinn en hann vill gleyma fyrsta leiknum fyrir nýtt lið sem fyrst.

Kidderminster Harriers úr E-deildinni er einnig komið áfram eftir gríðarlega óvæntan 2:1-heimasigur á Reading úr B-deildinni. George Puscas kom Reading yfir í fyrri hálfleik en þeir Sam Austin og Amari Morgan-Smith svöruðu fyrir Kidderminster.

Kidderminster Harriers vann óvæntan sigur á Reading.
Kidderminster Harriers vann óvæntan sigur á Reading. Ljósmynd/Kidderminster Harriers

E-deildarliðið Boreham Wood er einnig komið áfram eftir 2:0-heimasigur á C-deildarliði AFC Wimbledon. Tyrone Marsh og Adrian Clifford sáu um að gera mörkin.

Í eina úrvalsdeildarslagnum sem hófst klukkan 15 unnu ríkjandi bikarmeistarar Leicester sannfærandi 4:1-sigur á Watford á heimavelli. Youri Tielemans, James Maddison, Harvey Barnes og Marc Albrighton gerðu mörk Leicester en Joao Pedro skoraði fyrir Watford.

Þrír leikir sem hófust klukkan 15 enduðu með jafntefli og verða framlengdir og mun mbl.is birta aðra frétt um leið og þeim lýkur.

Önnur úrslit:
Peterborough – Bristol Rovers 2:1
Port Vale – Brentford 1:4
Wigan – Blackburn 3:2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert