Úrvalsdeildarliðið sterkara í framlengingu

Darnell Furlong og hetjan Neal Maupay eigast við í dag.
Darnell Furlong og hetjan Neal Maupay eigast við í dag. AFP

Úrvalsdeildarliðið Brighton er komið áfram í 4. umferð enska bikarins í fótbolta eftir 2:1-útisigur á WBA úr B-deildinni í framlengdum leik í dag.

Callum Robinson kom WBA yfir á 47. mínútu en Jakub Moder jafnaði á 81. mínútu og því varð að framlengja. Neal Maupay skoraði að lokum sigurmarkið á 98. mínútu.

Barnsley úr B-deildinni vann 5:4-sigur á Barrow úr D-deildinni í æsilegum leik í Barnsley. Staðan eftir venjulegan leiktíma var 4:4, þrátt fyrir að Barnsley hafi komist í 2:0 og verið manni fleiri allan seinni hálfleikinn.

Barrow jafnaði á 78. mínútu og skoruðu liðin tvö mörk hvort á ótrúlegum lokamínútum, en Barnsley komst tvisvar yfir á síðustu tíu mínútunum en Barrow neitaði að gefast upp. Að lokum fór þó B-deildarliðið áfram þar sem Carlton Morris skoraði sigurmarkið á 102. mínútu.

Þá er B-deildarlið QPR komið áfram eftir sigur í vítakeppni gegn Rotherham úr C-deildinni. Staðan eftir venjulegan leiktíma var markalaust og skoruðu liðin sitt markið hvort í framlengingunni. Eftir maraþonvítakeppni fór QPR að lokum áfram, en lokatölur í vítakeppninni urðu 8:7.

mbl.is