Falskar niðurstöður og bara einn smitaður

Jürgen Klopp á hliðarlínunni gegn Shrewsbury á Anfield í dag.
Jürgen Klopp á hliðarlínunni gegn Shrewsbury á Anfield í dag. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool segir að falskar niðurstöður úr skimun fyrir kórónuveirunni hafi leitt til þess að leik liðsins gegn Arsenal í deildabikarnum sem fram átti að fara síðasta fimmtudag hafi verið frestað.

Sama skimun hafi þýtt að allir þeir sem greindust ranglega jákvæðir í þeirri skimun voru sjálfkrafa enn úr leik í dag þegar Liverpool tók á móti Shrewsbury í ensku bikarkeppninni og vann 4:1.

Klopp sagði að aðeins einn leikmannanna hefði í raun og veru verið smitaður af kórónuveirunni og það hafi verið bakvörðurinn Trent Alexander-Arnold.

Hann tefldi fram fjórum strákum úr unglingaliði félagsins í byrjunarliðinu í dag og einn þeirra, Kaide Gordon, varð næstyngsti markaskorarinn í sögu Liverpool, 17 ára og 96 daga gamall.

„Þetta var liðið sem við gátum stillt upp í dag og strákarnir stóðu sig virkilega vel. Við fengum stærðar hópsmit í síðustu viku, að því er virtist, en það kom svo í ljós að niðurstöðurnar voru ekki réttar,“ sagði Klopp.

Leikirnir við Arsenal í deildabikarnum víxluðust vegna frestunarinnar og því mætast liðin á Anfield næsta fimmtudag, 13. janúar, og í London viku síðar, 20. janúar.

mbl.is