Reading kallar Jökul heim úr láni

Jökull Andrésson markvörður hjá Reading.
Jökull Andrésson markvörður hjá Reading. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enska knattspyrnufélagið Reading hefur kallað markvörðinn Jökul Andrésson heim úr láni hjá C-deildarliðinu Morecambe þar sem hann hefur spilað síðan í haust.

Skýrt er frá þessu á heimasíðu Reading og sagt að Jökull sé nú farinn til Tyrklands þar sem íslenska landsliðið mæti Úganda og Suður-Kóreu síðar í vikunni, en þegar hann komi þaðan fari hann til æfinga með aðalliði Reading sem leikur í B-deildinni.

Jökull var kallaður inn í A-landsliðshópinn í fyrsta skipti fyrir helgina eftir að Patrik Sigurður Gunnarsson dró sig út úr hópnum en Jökull lék tvo leiki með 21-árs landsliðinu í haust.

Jökull, sem er tvítugur, lék sautján mótsleiki með Morecambe frá byrjun tímabilsins, þar af þrettán í C-deildinni. 

mbl.is