Tilbúinn til að vera öðrum fyrirmynd

Edinson Cavani hitar upp fyrir leik með Manchester United.
Edinson Cavani hitar upp fyrir leik með Manchester United. AFP

Ralf Rangnick, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að úrúgvæski framherjinn Edinson Cavani ætli að leika með liðinu til loka tímabilsins og sé ekki að hugsa um að fara eitthvað annað í janúarmánuði eins og vangaveltur hafi verið um.

Rangnick sagði á fréttamannafundi í gær að hann og Cavani hefðu átt hálftíma langan fund á fimmtudaginn. „Ég sagði honum að ef ég mætti ráða þá yrði hann áfram hjá okkur, og hann sagðist vilja það eindregið. Ekki bara vegna þess að ég sagði honum að hann yrði að vera kyrr, heldur var það hans frumkvæði. Hann sagði mér að ég gæti treyst á sig til loka tímabilsins, hann myndi leggja sig allan fram og reyna að vera yngri leikmönnum félagsins fyrirmynd,“ sagði Rangnick.

„Þetta eru góðar fréttir fyrir mig því Edi er leikmaður sem getur með sinni gríðarlegu reynslu, hugarfari og vinnusemi verið öðrum leikmönnum fullkomin fyrirmynd,“ sagði Þjóðverjinn.

Cavani er 34 ára gamall og hefur skorað 12 mörk i 35 úrvalsdeildarleikjum fyrir United síðan hann kom frá París SG fyrir hálfu öðru ári.

mbl.is