Skoraði tvö stórkostleg mörk sem voru dæmd af (myndskeið)

Andy Carroll skoraði tvö glæsileg mörk sem bæði voru dæmd …
Andy Carroll skoraði tvö glæsileg mörk sem bæði voru dæmd af. Ljósmynd/Reading

Andy Carroll, fyrrverandi framherji Liverpool og enska landsliðsins, skoraði tvö stórkostleg mörk fyrir Reading gegn Fulham í ensku B-deildinni í fótbolta í kvöld. Því miður fyrir Carroll voru þau bæði dæmd af.

Fyrra markið gerði hann með glæsilegri hjólhestaspyrnu og í því síðara tók hann boltann á bringuna utan teigs og negldi honum í bláhornið á lofti. Carroll var í rangstöðu í báðum mörkunum og þau voru því bæði ógild.

Til að bæta gráu ofan á svart tapaði Reading, sem er í mikilli fallbaráttu, leiknum á heimavelli 0:7. Harry Wilson og Aleksandar Mitrovic gerðu tvö mörk hvor og þeir Kenny Tete, Neeskens Kebano og Tosin Adarabioyo komust einnig á blað.

Fulham er í öðru sæti með 48 stig, einu stigi á eftir toppliði Bournemouth. Reading er í 21. sæti, þremur stigum fyrir ofan fallsæti.

mbl.is