Newcastle kaupir leikmann númer tvö

Chris Wood skýlir boltanum frá Declan Rice í leik Burnley …
Chris Wood skýlir boltanum frá Declan Rice í leik Burnley og West Ham í vetur. AFP

Enska knattspyrnufélagið Newcastle United hefur tryggt sér leikmann númer tvö í janúarmánuði en ljóst er að félagið kaupir nýsjálenska framherjann Chris Wood af Burnley fyrir 25 milljónir punda.

Wood var með klásúlu í samningi sínum við Burnley um að hann gæti farið ef í hann kæmi tilboð sem hljóðaði á meira en 20 milljónir punda. Hann yfirgaf félagið í gær til að fara í læknisskoðun hjá Newcastle og verður að óbreyttu kynntur til sögunnar sem nýr leikmaður félagsins í dag.

Hann er annar leikmaðurinn sem Newcastle kaupir eftir að félagaskiptaglugginn var opnaður en Kieran Trippier kom frá Atlético Madrid fyrir 12 milljónir punda.

Wood er einn sterkasti skallamaður úrvalsdeildarinnar en hann er þrítugur og hefur skorað 49 mörk í 144 úrvalsdeildarleikjum fyrir Burnley frá árinu 2017 þegar hann kom til félagsins frá Leeds. Hann hefur skorað 27 mörk í 60 landsleikjum fyrir Nýja-Sjáland. Wood hefur leikið á Englandi frá 18 ára aldri og lék m.a. með WBA og Leicester á árum áður.

Newcastle varð ríkasta knattspyrnufélag heims seint á síðasta ári þegar sádiarabískir kaupsýslumenn keyptu það og reynir nú að krækja sér í nægilegan liðsauka í janúar til að það geti haldið sæti sínu í úrvalsdeildinni en þar er liðið í erfiðri fallbaráttu  og næstneðst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert