Derby bannað að kaupa leikmenn

Wayne Rooney er knattspyrnustjóri Derby og er sagður hafa verið …
Wayne Rooney er knattspyrnustjóri Derby og er sagður hafa verið afar óhress með fréttirnar í dag. AFP

Enska knattspyrnufélagið Derby County var í dag sett í framlengt bann við því að kaupa leikmenn í kjölfar þess að hafa ekki tekist að leggja fram sannfærandi áætlun um rekstur félagsins til loka þessa tímabils.

Þar með er ljóst að Wayne Rooney knattspyrnustjóri fær ekki tækifæri til að styrkja leikmannahópinn núna í janúarmánuði eins og til stóð og hann hefur m.a. misst reyndasta leikmanninn, Phil Jagielka, sem var með skammtímasamning sem er runninn út.

Sky Sports segir að heitt hafi verið í kolunum á æfingasvæði Derby í morgun þegar Rooney og leikmannahópurinn fengu þessar fréttir. Rooney hefur verið í viðbragðsstöðu frá áramótum og beðið eftir leyfi til að styrkja hópinn fyrir seinni hluta tímabilsins.

Enn hefur ekki komið nýtt kauptilboð í félagið enda þótt fregnir hafi verið um að nokkur slík séu í undirbúningi. Meðal annars er Mike Ashley, fyrrverandi eigandi Newcastle, tilbúinn til að kaupa Derby fyrir 50 milljónir punda, verði honum leyft að leggja fram tilboð.

Derby hóf tímabilið í ensku B-deildinni með 21 stig í mínus fyrir að brjóta fjárhagsreglur ensku deildakeppninnar. Liðið er enn neðst í deildinni en hefur fengið 32 stig úr leikjum sínum og er því með 11 stig á stigatöflunni og hefur nálgast hin botnliðin óðfluga í síðustu leikjum.

mbl.is