Einstefna á Anfield

Diogo Jota, Jordan Henderson og Fabinho fagna marki hins síðastnefnda …
Diogo Jota, Jordan Henderson og Fabinho fagna marki hins síðastnefnda í dag. AFP

Liverpool vann þægilegan 3:0 sigur á Brentford á Anfield í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Heimamenn sáu nánast alfarið um að leika sér með boltann í fyrri hálfleiknum en þegar gestirnir fengu að prófa entist það yfirleitt ekki lengi. Þrátt fyrir að vera mun meira með boltann gekk Liverpool-mönnum þó frekar erfiðlega að skapa færi. Virgil van Dijk fékk hörkufæri eftir rúmar 20 mínútur eftir hornspyrnu en Álvaro Fernández varði mjög vel frá honum með tánni. Liverpool komst svo yfir rétt fyrir lok hálfleiksins en þar var að verki brasilíski miðjumaðurinn Fabinho. Hornspyrna Trent Alexander-Arnold fór þá í gegnum allan pakkann og alla leið á fjærstöngina þar sem Fabinho stóð og skallaði boltann nokkuð óáreittur í netið. Varnarleikur gestanna í markinu var ekki upp á marga fiska.

Oxlade-Chamberlain skoraði mark númer tvö.
Oxlade-Chamberlain skoraði mark númer tvö. AFP

Í seinni hálfleik var það sama uppi á teningnum. Liverpool sá um að halda boltanum og Brentford sá um að verjast. Gestirnir geta þakkað markverði sínum, Álvaro Fernández að heimamenn bættu ekki mörgum mörkum við en hann varði trekk í trekk frá leikmönnum Liverpool. Alex Oxlade-Chamberlain tvöfaldaði þó forystu Liverpool með flottum skalla á fjærstönginni eftir að Andy Robertson fékk allan tímann í heiminum til að gefa fyrir. 

Þegar rúmlega tíu mínútur voru svo til leiksloka skoraði varamaðurinn og afmælisbarnið Takumi Minamino þriðja mark Liverpool. Gestirnir reyndu þá að spila út frá markmanni en fengu á sig pressu frá fremstu mönnum Liverpool. Það endaði með því að Roberto Firmino hirti af þeim boltann og lagði hann til hliðar á Minamino sem skoraði í svo gott sem opið mark. Eftir þetta mark róaðist leikurinn á ný og heimamenn stýrðu síðustu mínútunum í öðrum gír. Lokatölur 3:0 sem var síst of stór munur.

Með sigrinum fer Liverpool upp í annað sæti deildarinnar með 45 stig, 11 stigum á eftir toppliði Manchester City með leik til góða. Brentford er í 14. sæti deildarinnar með 23 stig.

Afmælisbarnið Takumi Minamino fagnar marki sínu með því að fara …
Afmælisbarnið Takumi Minamino fagnar marki sínu með því að fara á hestbak á Roberto Firmino. AFP
Liverpool 3:0 Brentford opna loka
90. mín. Ivan Toney (Brentford) á skot sem er varið Langur bolti fram í hlaupið hjá Toney. Fyrsta snertingin er gjörsamlega frábær en skotið er beint á Alisson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert