Fjölskyldan vissi ekki af fyrsta leiknum

Sol Campbell bar um tíma höfuð og herðar yfir aðra …
Sol Campbell bar um tíma höfuð og herðar yfir aðra leikmenn Tottenham. AFP

Sol Campbell, fyrrverandi leikmaður Tottenham Hotspur, Arsenal og enska landsliðsins, ólst upp við kröpp kjör í austurhluta Lundúna á áttunda og níunda áratug seinustu aldar. Þessu lýsir hann í ítarlegu viðtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

„Ég gerði allt sjálfur. Fylgdi bara eðlishvötinni. Ætti ég að gera þetta eða hitt? Eitthvað innra með mér dreif mig áfram og sannfærði mig um að þetta eða hitt væri gott fyrir mig; það myndi koma mér að notum síðar. Gerði ég mistök lét ég mér það í léttu rúmi liggja enda var lærdómsvegferðin mér holl.“

Hann kemur úr stórri fjölskyldu, þeir eru níu bræðurnir og tvær systur, og hann er yngstur, örverpið. „Ég bý að yndislegum minningum en þetta var líka strembið. Foreldrar mínir unnu eins og skepnur; enda forgangsmál að hafa fyrir salti í grautinn. Svo lengi sem maður var heill á húfi var allt í lagi, þau spurðu aldrei: Hvernig gekk fótboltaleikurinn? Enginn spurði spurninga þegar ég kom heim. Ég var mjög feimið barn. Spilaði bara fótbolta en enginn virtist í reynd vita hvað ég var að sýsla. Meira að segja þegar ég lék minn fyrsta leik fyrir Spurs þá vissi enginn úr fjölskyldunni af því enda var mér svo sem ekki sjálfum kunnugt um það fyrir fram hvort ég væri í liðinu. Það var ekki fyrr en ég fór að vekja athygli að foreldrar mínir kveiktu á þessu. „Hey, er strákurinn ykkar að spila um helgina?“ spurðu vinir þeirra og augu þeirra opnuðust.“

Hann hlær.

„Eftir það horfði mamma á leikina mína í sjónvarpinu; var orðin of gömul til að fara á völlinn en ég minnist þess þó að þau pabbi mættu á einn úrslitaleikinn hjá mér. Ég held að þau hafi hvorki skilið upp né niður í þessu fjölleikahúsi öllu saman. Þetta var einfaldlega um of fyrir þau enda varð ég á augabragði mjög frægur.“

Hvatti mig til dáða

– Hvernig mótaði æskan þig sem manneskju og knattspyrnumann?

„Ég held að hún hafi hvatt mig til dáða. Hverfið sem ég ólst upp í var erfitt en það sem bjargaði mér var West Ham-garðurinn. Hann var steinsnar frá heimili mínu og þar spilaði ég fótbolta út í eitt. Ég spilaði líka fótbolta á götunni og minnist þess að hafa hoppað yfir skólahliðið til að gera einmitt það. Ég á líka mjög ljúfar minningar frá árunum tveimur sem ég var í Lilleshall, akademíu enska knattspyrnusambandsins sem einnig var heimavistarskóli.

Raunar lærði ég meira á tveimur árum þar en alla mína skólagöngu í Austur-Lundúnum, þar sem kennslan var ekki upp á marga fiska á þeim tíma. Í Lilleshall fannst manni eins og kennurunum stæði ekki á sama, þeir vildu það besta fyrir okkur. Hvað knattspyrnuna varðar var hugsunin líka mjög frjó og maður umkringdur hæfu fólki sem vildi að maður fengi sem allra mest út úr þessum tveimur árum og yrði helst enskur landsliðsmaður í framtíðinni. Þetta opnaði leiðina inn í 18 ára landsliðið, þar sem ég varð Evrópumeistari eftir sigur á Tyrkjum. Á leiðinni í úrslitaleikinn unnum við Hollendinga 4:1 og ég man eftir að hafa glímt við Clarence Seedorf í þeim leik.“

Nánar er rætt við Sol Campbell í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en Tottenham og Arsenal áttu einmitt að mætast í úrvalsdeildinni í dag. Leiknum var frestað.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »