„Mun aldrei neita að spila fyrir United“

Martial(lengst til hægri), hefur verið meira í æfingagallanum en keppnisgallanum …
Martial(lengst til hægri), hefur verið meira í æfingagallanum en keppnisgallanum undanfarið. AFP

Anthony Martial, sóknarmaður enska knattspyrnuliðsins Manchester United, fann sig knúinn til að svara fyrir sig á Instagram-síðu sinni eftir ummæli Ralf Rangnick, stjóra United, að Martial hefði ekki viljað spila leik liðsins gegn Aston Villa í gær.

Athygli vakti að United mætti ekki með fullan varamannabekk, þrátt fyrir að vera með tvo varamarkmenn. Rangnick sagði einfaldlega að Martial hefði ekki viljað vera í leikmannahópnum.

Martial vill fara frá félaginu í janúar en sagði þessi ummæli stjóra síns ekki eiga við nein rök að styðjast. 

„Ég mun aldrei neita að spila leik fyrir Manchester United. Ég hef verið hérna í sjö ár og mun aldrei sýna félaginu og stuðningsmönnum þá vanvirðingu.“

Ljóst er að Martial er kominn í slæma stöðu en hann hefur ekki komið við sögu hjá United síðan 2. desember. Talið er að Sevilla, Juventus og Barcelona hafi áhuga á þessum 26 ára gamla Frakka og að lánssamningur sé líklegasta niðurstaðan.

mbl.is