Byrjaður að æfa eftir erfið meiðsli

Harvey Elliott og Pascal Struijk eftir að sá fyrrnefndi meiddist …
Harvey Elliott og Pascal Struijk eftir að sá fyrrnefndi meiddist illa. AFP

Ungstirnið Harvey Elliott, leikmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, tók fullan þátt í æfingu karlaliðsins í gær eftir að hafa jafnað sig á ökklabroti sem hann varð fyrir fyrr á tímabilinu.

Elliott, sem er aðeins 18 ára gamall, meiddist í 3:0-sigri Liverpool á Leeds United þann 12. september síðastliðinn. Pascal Struijk, varnamaður Leeds, fór þá í háskalega tæklingu með þeim afleiðingum að Elliott sneri illa upp á ökklann.

Endurhæfing hans hefur gengið vel og raunar svo vel að Elliott gæti snúið aftur á keppnisvöllinn von bráðar.

Í það minnsta tók hann þátt í æfingunni í gær án vandkvæða.

Af Liverpool er það annars að frétta að Alex Oxlade-Chamberlain meiddist smávægilega í 3:0-sigrinum gegn Brentford um síðustu helgi og getur því ekki tekið þátt í síðari leik liðsins gegn Arsenal í undanúrslitum í enska deildabikarnum annað kvöld.

Hann gæti þó verið klár í slaginn að nýju strax um næstu helgi þegar Liverpool heimsækir Crystal Palace.

mbl.is