Ferguson tekur við Everton til bráðabirgða

Duncan Ferguson lætur í sér heyra á hliðarlínunni þegar hann …
Duncan Ferguson lætur í sér heyra á hliðarlínunni þegar hann var síðast bráðabirgðastjóri Everton. AFP

Skotinn Duncan Ferguson er tekinn við stjórnartaumunum hjá karlaliði enska knattspyrnufélagsins Everton til bráðabirgða.

Leit stendur nú yfir að næsta knattspyrnustjóra Everton eftir að Spánverjinn Rafael Benítez var látinn taka pokann sinn um síðustu helgi í kjölfar afleits gengis liðsins að undanförnu.

Þetta er í annað sinn sem Ferguson, sem lék sjálfur með Everton um langt árabil, tekur við sem bráðabirgðastjóri hjá félaginu.

Það gerði hann einnig í desember árið 2019 í kjölfar þess að Portúgalinn Marco Silva var rekinn.

Ferguson var í þjálfarateymi Benítez og þar á undan var hann aðstoðarþjálfari Carlo Ancelotti.

Everton á nú í viðræðum við Frank Lampard um að taka við stjórastöðunni til langframa. Þá hefur nafn Wayne Rooney, knattspyrnustjóra Derby County, einnig verið nefnt til sögunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert