Gerrard reynir við Suárez

Steven Gerrard og Luis Suárez voru liðsfélagar hjá Liverpool í …
Steven Gerrard og Luis Suárez voru liðsfélagar hjá Liverpool í þrjú tímabil. AFP

Steven Gerrard, knattspyrnustjóri Aston Villa, hefur sett sig í samband við úrúgvæska framherjann Luis Suárez með það fyrir augum að hann gangi til liðs við enska félagið. Það er spænski blaðamaðurinn Gerard Romero sem greinir frá þessu.

Suárez, sem er 34 ára gamall, er samningsbundinn Atlético Madrid á Spáni en hann hefur fengið fá tækifæri með liðinu í undanförnum leikjum.

Framherjinn þekkir vel til á Englandi eftir að hafa leikið með Liverpool frá 2011 til ársins 2014 en hann gekk til liðs við Barcelona sumarið 2014 fyrir 65 milljónir punda.

Hann og Gerrard léku saman hjá Liverpool og voru nálægt því að vinna ensku úrvalsdeildina saman en Gerrard hefur aldrei farið leynt með aðdáun sína á sóknarmanninninum.

Philippe Coutinho, fyrrverandi samherji Gerrards og Suárez hjá Liverpool, gekk til liðs við Aston Villa á dögunum á láni frá Barcelona.

Suárez verður samningslaus næsta sumar og Aston Villa gæti því fengið leikmanninn ódýrt áður en janúarglugganum verður lokað.

mbl.is