Lygilegur sigur Tottenham

Steven Bergwijn skoraði tvö mörk í uppbótartíma.
Steven Bergwijn skoraði tvö mörk í uppbótartíma. AFP

Tottenham vann ótrúlegan 3:2-útisigur á Leicester í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta en Steven Bergwijn skoraði tvö mörk í uppbótartíma.

Tottenham byrjaði betur og skapaði sér nokkur fín færi í upphafi leiks. Það kom því algjörlega gegn gangi leiksins þegar Patson Daka kom Leicester yfir á 24. mínútu. Forskotið entist í 14 mínútur, eða þar til Harry Kane jafnaði á 38. mínútu og var staðan í hálfleik 1:1.

James Maddison kom Leicester aftur yfir á 76. mínútu og virtust heimamenn vera að sigla þremur stigum í hús en Bergwijn var á öðru máli. Hann jafnaði á fimmtu mínútu uppbótartímans og skoraði sigurmarkið tveimur mínútum seinna.

Tottenham er í fimmta sæti með 36 stig og Leicester í tíunda sæti með 25 stig.

mbl.is