Þrír leikmenn ekki nógu góðir fyrir Rangnick

Harry Maguire hefur verið fyrirliði Manchester United undanfarin tímabil.
Harry Maguire hefur verið fyrirliði Manchester United undanfarin tímabil. AFP

Ralf Rangnick, knattspyrnustjóri Manchester United, vill losna við þrjá leikmenn frá félaginu. Það er breski miðillinn The Express sem greinir frá þessu.

Þýski stjórinn fundaði með forráðamönnum félagsins í byrjun mánaðarins þar sem hann ræddi leikmannahóp liðsins.

The Express greinir frá því að Rangnick hafi tjáð forráðamönnum félagsins að þeir Harry Maguire, Luke Shaw og Aaron Wan-Bissaka séu ekki nægilega góðir til þess að spila fyrir félagið.

Allir hafa þeir verið í stórum hlutverkum hjá félaginu undanfarin tímabil en Maguire er fyrirliði liðsins.

Hann hefur hins vegar verið talsvert gagnrýndur á tímabilinu fyrir frammistöðu sína og hafa stuðningsmenn félagsins kallað eftir því að hann verði sviptur fyrirliðabandinu.

Rangnick tók við stjórnartaumunum hjá félaginu til bráðabirgða eftir að Ole Gunnar Solskjær var rekinn í nóvember en hann mun láta af störfum sem þjálfari liðsins í sumar og gerast ráðgjafi hjá félaginu.

mbl.is