Skrifaði undir samning við Bolton

Jón Daði Böðvarsson skrifaði undir átján mánaða samning við Bolton.
Jón Daði Böðvarsson skrifaði undir átján mánaða samning við Bolton. Ljósmynd/Bolton

Jón Daði Böðvarsson er genginn til liðs við enska knattspyrnufélagið Bolton á frjálsri sölu. Þetta tilkynnti félagið á heimasíðu sinni í dag.

Jón Daði, sem er 29 ára gamall, skrifaði undir átján mánaða samning við enska C-deildarfélagið en hann rifti samningi sínum við Millwall til þess að geta gengið til liðs við Bolton.

Sóknarmaðurinn hefur verið í herbúðum Millwall frá árinu 2019 en ekkert leikið með liðinu í B-deildinni á yfirstandandi tímabili og aðeins komið við sögu í einum leik í deildabikarnum. Bolton er með 29 stig í sautjánda sæti C-deildarinnar.

Jón Daði hefur leikið á Englandi frá árinu 2016, fyrst með Wolves, síðar Reading og loks Millwall en hann á að baki 62 A-landsleiki þar sem hann hefur skorað fjögur mörk.

Jón Daði er áttundi Íslendingurinn sem semur við Bolton en þeir Guðni Bergs­son, Eiður Smári Guðjohnsen, Arn­ar Gunn­laugs­son, Heiðar Helgu­son, Birk­ir Krist­ins­son, Ólaf­ur Páll Snorra­son og Grét­ar Rafn Steins­son hafa allir verið á mála hjá félaginu. Þeir Birkir og Ólafur léku þó aldrei með aðalliði Bolton.

mbl.is