Heldur áfram hjá Tottenham

Hugo Lloris verður áfram í röðum Tottenham næstu árin.
Hugo Lloris verður áfram í röðum Tottenham næstu árin. AFP

Hugo Lloris, fyrirliði og markvörður Tottenham og landsliðsmarkvörður Frakka, hefur framlengt samning sinn við enska félagið um hálft þriðja ár til viðbótar.

Lloris, sem er 35 ára gamall, verður nú í röðum Lundúnafélagsins fram á sumarið 2024 en hann er á sínu tíunda ári hjá Tottenham. Hann kom til félagsins frá Lyon í Frakklandi sumarið 2012 og hefur spilað 395 leiki. Aðeins tveir markverðir í sögu Tottenham eiga fleiri leiki að baki, Pat Jennings 590 leiki og Ted Ditchburn 452.

Af þessu eru 317 leikir í úrvalsdeildinni og Lloris er leikjahæsti leikmaður Tottenham í deildinni frá stofnun hennar árið 1992. Lloris hefur ennfremur ekki misst af síðustu 67 deildarleikjum liðsins.

Lloris er næstleikjahæstur í sögu franska landsliðsins með 136 landsleiki og aðeins Lilian Thuram (142) á fleiri að baki. Hann varð heimsmeistari með Frökkum 2018, vann Þjóðadeildina með liðinu á síðasta ári og fékk silfurverðlaunin á EM 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert