Tekur Cannavaro við Everton?

Fabio Cannavaro er sagður hafa rætt við Everton.
Fabio Cannavaro er sagður hafa rætt við Everton. AFP

Ítalinn Fabio Cannavaro hefur verið nefndur til sögunnar sem næsti knattspyrnustjóri Everton sem leitar nú að eftirmanni Rafaels Benítez.

Daily Telegraph segir að Everton hafi þegar rætt við Cannavaro sem hætti störfum hjá Guangzhou Evergrande í Kína í september eftir að hafa verið með liðið í fjögur ár en hann hefur stýrt kínverskum liðum lengst af eftir að hann fór út í þjálfun.

Cannavaro fékk Gullknöttinn, Ballon d'Or, árið 2006 eftir að frábær varnarleikur hans lagði grunninn að heimsmeistaratitli ítalska landsliðsins. Hann lék 136 landsleiki fyrir Ítalíu og spilaði rúmlega 500 deildaleiki á ferlinum, m.a. með Juventus, Real Madrid og Inter Mílanó.

Frank Lampard og Wayne Rooney hafa annars verið sterklega orðaðir við Everton en Duncan Ferguson stýrir liðinu til bráðabirgða á meðan leitað er að nýjum stjóra.

mbl.is