Annar sigur Newcastle kom í Leeds

Jonjo Shelvey fagnar sigurmarkinu.
Jonjo Shelvey fagnar sigurmarkinu. AFP

Newcastle vann aðeins sinn annan leik á tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag er liðið heimsótti Leeds og fór með 1:0-sigur af hólmi.

Jonjo Shelvey skoraði sigurmarkið beint úr aukaspyrnu, en Ilan Meslier í marki Leeds átti að gera mun betur, enda skotið ekki sérlega fast og í markmannshornið.

Daniel James fékk besta færi Leeds skömmu áður en hitti boltann illa í teignum eftir að Raphinha hafði skotið í varnarmann.

Leeds er áfram í 15. sæti með 22 stig en Newcastle fór upp fyrir Watford og upp í 15 stig. Liðið er nú aðeins einu stigi frá öruggu sæti.

mbl.is