Liverpool saxar á toppliðið

Alex Oxlade-Chamberlain fagnar hér marki sínu og öðru marki Liverpool …
Alex Oxlade-Chamberlain fagnar hér marki sínu og öðru marki Liverpool á Selhurst Park í dag. AFP

Liverpool saxaði á forystu Manchester City á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu með 3:1-útisigri gegn Crystal Palace á Selhurst Park í dag. Liverpool er sem fyrr í öðru sæti deildarinnar, nú með 48 stig, níu stigum á eftir City sem gerði jafntefli við Southampton í gær.

Gestirnir hófu leikinn af miklum krafti og komust í verðskuldaða tveggja marka forystu snemma. Varnarmaðurinn öflugi Virgil van Dijk skoraði fyrstur á 8. mínútu með föstum skalla í nærhornið eftir hornspyrnu Andrew Robertson á áttundu mínútu.

Robertson lagði svo upp annað mark á 32. mínútu þegar hann lyfti boltanum frá vinstri inn í vítateig, á Alex Oxlade- Chamberlain, sem tók laglega við boltanum og skoraði gott mark. Eftir þetta vöknuðu þó heimamenn til lífs og áttu nokkur ágæt færi fyrir hálfleik en staðan var engu að síður 2:0 í hléinu.

Heimamenn héldu þó áfram að færa sig upp á skaftið í síðari hálfleik og uppskáru verðskuldað mark á 55. mínútu. Joachim Andersen átti þá laglega spyrnu fram völlinn og inn fyrir vörn Liverpool, á Jean-Philippe Mateta sem renndi boltanum til hliðar á Odsonne Édouard sem skoraði örugglega í tómt markið.

Áfram reyndu svo heimamenn að kreista fram jöfnunarmark og þurfti Alisson í marki Liverpool nokkrum sinnum að taka á honum stóra sínum. Besta færið átti sennilega Michael Olise um sjö mínútum fyrir leikslok þegar hann reyndi að vippa boltanum yfir Brasilíumanninn og í netið en Alisson sá við honum með góðri markvörslu.

Á 89. mínútu fengu svo gestirnir umdeilda vítaspyrnu sem Fabinho skoraði úr til að innsigla sigurinn. Diogo Jota var þá reyna koma sér í færi inn í vítateig þegar hann og Vicente Guaita í marki Palace lentu saman. Samstuðið var ekki mikið en nóg til að sannfæra Kevin Friend dómara eftir að hann horfði á nokkrar endursýningar í VAR-skjánum. Lokatölur 3:1.

Liverpool er sem fyrr segir með 48 stig í öðru sæti deildarinnar en Crystal Palace er í 13. sæti með 24 stig.

Virgil van Dijk kemur hér Liverpool yfir með laglegu skallamarki …
Virgil van Dijk kemur hér Liverpool yfir með laglegu skallamarki á Selhurst Park í dag. AFP
Crystal Palace 1:3 Liverpool opna loka
90. mín. James Milner (Liverpool) kemur inn á
mbl.is