Mörk Liverpool áttu aldrei að standa

Kevin Friend dæmdi leik Crystal Palace og Liverpool í gær.
Kevin Friend dæmdi leik Crystal Palace og Liverpool í gær. AFP

Knattspyrnudómarinn Mark Clattenburg segir að tvö af mörkum Liverpool gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni á Selhurst Park í Lundúnum í gær hefðu aldrei átt að standa.

Leiknum lauk með 3:1-sigri Liverpool en Liverpool var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddi 2:0 í hálfleik.

Clattenburg segir að annað mark Alex Oxlade-Chamberlain hefði aldrei átt að standa og þá átti Liverpool ekki að fá vítaspyrnuna sem liðið skoraði þriðja markið úr.

„Crystal Palace átti fullan rétt á því að vera ósátt með dómgæsluna í þessum leik,“ sagði Clattenburg í pistli sínum á heimasíðu Sportsmail.

„Roberto Firmino var fyrir innan í aðdraganda annars marksins. Firmino reyndi að skalla boltann sem truflaði varnarmanninn klárlega. Boltinn datt að lokum fyrir Alex Oxlade-Chamberlain sem skoraði en VAR hefði átt að dæma markið af.

Þá átti Kevin Friend að standa með ákvörðun sinni um að dæma markspyrnu, ekki víti. Leikmaðurinn spyrnir boltanum í burtu og hleypur svo í átt að markverðinum. Hann býr til þessa snertingu sjálfur. 

Ég átta mig engan vegin á því af hverju Craig Pawson var að skipta sér af þessu í VAR-herberginu. Þetta voru aldrei augljós mistök hjá dómaranum og Kevin Friend gerði stór mistök þarna,“ bætti Clattenburg við.

mbl.is