Rekinn eftir fjórtán leiki og 112 daga

Claudio Ranieri.
Claudio Ranieri. AFP

Claudio Ranieri hefur verið sagt upp störfum sem knattspyrnustjóra enska úrvalsdeildarfélagsins Watford.

Félagið hefur ekki tilkynnt þetta formlega en The Athletic segir að Ítalanum hafi þegar verið sagt upp.

Hann tók við liðinu 4. október og hafði aðeins stýrt því í 14 leikjum á 112 dögum en 0:3 ósigur gegn Norwich í botnslag úrvalsdeildarinnar á föstudagskvöld er sagt hafa verið kornið sem fyllti mælinn.

Af þrettán úrvalsdeildarleikjum tapaði Watford tíu undir stjórn Ranieri. Watford er í nítjánda sæti af 20 liðum í deildinni með 14 stig úr 20 leikjum.

Hinn sjötugi Ranieri hefur þar með lokið störfum hjá fjórum enskum úrvalsdeildarfélögum á ferlinum en hann var áður stjóri Chelsea, Leicester og Fulham.

Uppfært:
Watford hefur staðfest uppsögnina.

mbl.is