Nær Gerrard í leikmann til Liverpool?

Joe Gomez í leik með Liverpool gegn Arsenal í deildabikarnum …
Joe Gomez í leik með Liverpool gegn Arsenal í deildabikarnum á dögunum. AFP

Steven Gerrard, knattspyrnustjóri Aston Villa, hefur augastað á leikmanni hjá uppeldisfélagi sínu Liverpool sem hann vill gjarnan fá í sínar raðir.

Samkvæmt Football Insider er Gerrard spenntur fyrir því að fá miðvörðinn Joe Gomez í sínar raðir en hann hefur mátt sætta sig við að vera varamaður fyrir miðverðina öflugu Virgil van Dijk, Joel Matip og Ibrahima Konaté hjá Liverpool.

Gomez er 24 ára gamall, hefur spilað 11 landsleiki fyrir England og leikið með Liverpool í tæp sjö ár. Hann var fastamaður í vörninni meistaratímabilið 2019-20 en hefur aðeins komið við sögu í fjórum leikjum í úrvalsdeildinni í vetur, í öll skiptin sem varamaður.

mbl.is