Verður ekki seldur frá Liverpool

Joe Gomez er orðaður við brottför frá Liverpool þessa dagana.
Joe Gomez er orðaður við brottför frá Liverpool þessa dagana. AFP

Enski varnarmaðurinn Joe Gomez er ekki á förum frá enska knattspyrnufélaginu Liverpool. Það er BBC sem greinir frá þessu.

Gomez, sem er 24 ára gamall, hefur ekki átt fast sæti í liði Liverpool á tímabilinu en hann er samningsbundinn enska félaginu til sumarsins 2024.

Miðvörðurinn hefur verið orðaður við bæði Real Madríd og Aston Villa að undanförnu en í morgun bárust fréttir af því að Steven Gerrard, stjóri Villa, væri að undirbúa tilboð í leikmanninn.

Gomez hefur aðeins komið við sögu í fjórum leikjum með Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni en hann hefur komið inn á sem varamaður í öllum þeirra.

Alls hefur hann byrjað fjóra leiki í öllum keppnum á leiktíðinni, þar af þrjá í deildabikarnum, en hann á að baki 133 leiki fyrir Liverpool í öllum keppnum.

mbl.is