Sóknarmennirnir sagðir ósáttir með Tuchel

Kai Havertz og Timo Werner hafa ekki fundið taktinn hjá …
Kai Havertz og Timo Werner hafa ekki fundið taktinn hjá Chelsea það sem af er tímabili. AFP

Sóknarmenn enska knattspyrnufélagsins Chelsea eru sagðir ósáttir með þýska stjórann Thomas Tuchel.

Það er The Athletic sem greinir frá þessu. Fyrr í mánuðinum bárust fréttir af því að Romelu Lukaku væri óánægður í herbúðum félgsins en framherjinn gagnrýndi leikaðferðir þýska stjórans í viðtali við Sky Sports.

Lukaku var tekinn út úr hóp eftir viðtalið og baðst síðar afsökunar á ummælum sínum en hann hefur ekki fundið taktinn með liðinu eftir komu frá Inter Mílanó síðasta sumar fyrir 100 milljónir punda.

Í frétt The Athletic kemur meðal annars fram að sóknarmenn liðsins séu ósáttir með skammir frá stjóranum á hliðarlínunni í hvert skipti sem þeir gera mistök.

Þá væru leikmenn liðsins mjög hræddir við að gera mistök á vellinum, af ótta við viðbrögð Tuchels, og að þeir ættu því erfitt með að sýna frumkvæði í sínum leik vegna þessa.

Christian Pulisic, Callum Hudson-Odoi, Hakim Ziyech og Timo Werner eru allt leikmenn sem hafa ekki fundið taktinn á tímabilinu og þá hefur Pulisic og Hudson-Odoi verið spilað út úr stöðu á leiktíðinni.

mbl.is