Frestur Derby framlengdur

Wayne Rooney er knattspyrnustjóri Derby.
Wayne Rooney er knattspyrnustjóri Derby. AFP

Enska knattspyrnufélagið Derby County hefur fengið frest í einn mánuð til viðbótar til þess að finna nýjan eiganda og leysa þau fjárhagslegu vandamál sem hvíla á félaginu.

Fresturinn sem Derby hafði til að ganga frá málum áttu að renna út næsta þriðjudag, 1. febrúar, en hann var framlengdur fram í byrjun mars. Félagið fór í greiðslustöðvun í haust og hefur ekki mátt kaupa leikmenn undanfarið ár.

Nokkrir aðilar hafa átt viðræður við skiptastjórnendur félagsins um kaup á því en þær hafa gengið erfiðlega þar sem tvö félög hafa lagt fram skaðabótakröfur á hendur Derby. Middlesbrough telur sig hafa orðið fyrir tjóni árið 2019 þegar Derby komst uppfyrir Middlesbrough í B-deildinni og náði umspilssæti, og Wycombe Wanderers telur að Derby hefði átt að fá 21 stig í mínus á síðasta tímabili, en ekki þessu. Það hefði komið í veg fyrir fall Wycombe úr B-deildinni síðasta vor.

Derby er með 14 stig í næstneðsta sæti deildarinnar þrátt fyrir að 21 stig hafi verið dregið af liðinu á þessu tímabili en liðið hefur verið á talsverðri siglingu undanfarnar vikur. Það hefur hinsvegar misst frá sér leikmenn núna í janúarmánuði þar sem ekki var heimilt að framlengja samninga við þá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert