Ronaldo á förum frá United?

Cristiano Ronaldo er sagður ósáttur með gengi liðsins á leiktíðinni.
Cristiano Ronaldo er sagður ósáttur með gengi liðsins á leiktíðinni. AFP

Cristiano Ronaldo, leikmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, íhugar nú að yfirgefa félagið.

Það er spænski miðillinn El Nacional sem greinir frá þessu. Ronaldo, sem er 36 ára gamall, er sagður vilja komast aftur til Real Madríd þar sem hann lék frá 2009 til ársins 2018.

El Nacional greinir frá því að Ronaldo hafi beðið umboðsmann sinn, Jorge Mendes, um hafa samband við Florentino Pérez, forseta Real Madrid, með það fyrir augum að Portúgalinn snúi aftur til Spánar.

Ronaldo er sagður ósáttur með gengi United á leiktíðinni og þá staðreynd að félagið sé í harðri baráttu um Meistaradeildarsæti, ekki Englandsmeistaratitilinn en hann gæti farið næsta sumar ef United mistekst að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni.

Ronaldo hefur skorað 14 mörk í 23 leikjum með United á tímabilinu en hann skoraði 450 mörk í 438 leikjum með Real Madríd á sínum tíma.

mbl.is