Lampard að taka við Everton

Frank Lampard var knattspyrnustjóri Chelsea þar til í janúar á …
Frank Lampard var knattspyrnustjóri Chelsea þar til í janúar á síðasta ári. AFP

Frank Lampard verður að öllum líkindum næsti knattspyrnustjóri Everton en forráðamenn félagsins hafa boðið honum að verða eftirmaður Rafa Benítez sem var rekinn á dögunum.

BBC greinir frá. Lampard hefur verið án félags í eitt ár, eða síðan hann var rekinn sem knattspyrnustjóri Chelsea í janúar á síðasta ári. Lampard gerði einmitt garðinn frægan sem leikmaður Chelsea, þar sem hann var einn besti miðjumaður ensku úrvalsdeildarinnar um árabil.

Eftir að ferlinum lauk tók hann við Derby og var hársbreidd frá því að koma liðinu upp í ensku úrvalsdeildina, áður en hann tók við Chelsea.

Everton er í 16. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 19 stig, fjórum stigum fyrir ofan fallsæti.

mbl.is