Rooney neitaði að ræða við Everton

Wayne Rooney er knattspyrnustjóri Derby.
Wayne Rooney er knattspyrnustjóri Derby. AFP

Wayne Rooney, fyrrverandi fyrirliði enska landsliðsins og núverandi knattspyrnustjóri Derby County, sagði í dag að hann hefði hafnað því að ræða við Everton um möguleikana á því að taka við stjórn liðsins.

Everton leitar að nýjum stjóra eftir að hafa rekið Rafael Benítez á dögunum og Rooney, sem ólst upp hjá Everton, hóf ferilinn þar og lék þar eitt tímabil undir lok ferilsins, hefur þrálátlega verið orðaður við félagið.

Rooney var spurður um málið á fréttamannafundi sínum hjá Derby í dag. Hann sagði þar að Everton hefði haft samband við umboðsmann sinn með viðræður í huga en hann hefði hafnað því strax að ræða við félagið.

„Það var að sjálfsögðu erfið ákvörðun fyrir mig. Ég er viss um að ég á eftir að stjórna liði í úrvalsdeildinni og tel mig 100 prósent tilbúinn í það. Ef ég verð einhvern tíma í framtíðinni stjóri hjá Everton þá væri það stórkostlegt. En ég hef verk að vinna í mínu starfi hjá Derby County og það skiptir mig öllu máli núna," sagði Rooney á fundinum.

Rooney tók við Derby seint á árinu 2020 eftir að hafa verið leikmaður liðsins og aðstoðarstjóri frá áramótum og lagði þá skóna á hilluna til að einbeita sér að stjórnuninni. Hann nýtur mikilla vinsælda hjá stuðningsfólki Derby eftir að hafa komið liðinu í þá stöðu að eiga möguleika á að halda sæti sínu í B-deildinni þrátt fyrir að 21 stig hafi verið dregið af liðinu og það hafi ekki mátt kaupa leikmenn síðastliðið ár.

mbl.is