Margrét: Getur ekki hangið og beðið eftir kaffibolla

Furðulegir varnartilburðir portúgalska bakvarðarins Diogo Dalot í marki Leicester City gegn Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu voru til umræðu í Vellinum á Símanum Sport í kvöld.

Kelechi Iheanacho kom þá Leicester í 1:0 í leik sem endaði 1:1.

Eftir að leikmenn Man. United geystust fram í skyndisókn í kjölfar hornspyrnu Leicester sat Dalot eftir, Leicester vann boltann og hann spilaði James Maddison réttstæðan með því að koma sér ekki í línu við aðra varnarmenn Man. United. Maddison lagði í kjölfarið upp markið fyrir Iheanacho.

„Þessi varnarleikur Dalot í þessu marki, hann hlýtur að vita það að hann getur ekki verið að hanga þarna og bíða eftir að fá kaffibolla sendan úr stúkunni.

Þetta er fótboltaleikur, þú verður að bregðast við og vera í standi. Hann hlýtur að vita það,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir.

Umræður hennar, Bjarna Þórs Viðarssonar og Tómasar Þórs Þórðarsonar um Dalot og einnig Jadon Sancho má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert