Margrét: Stórkostlegt að fylgjast með Eriksen

Danski sóknartengiliðurinn Christian Eriksen var til umræðu í Vellinum á Símanum Sport í gærkvöldi, þar sem þau Margrét Lára Viðarsdóttir, Bjarni Þór Viðarsson og Tómas Þór Þórðarson héldu ekki vatni yfir magnaðri frammistöðu Danans eftir endurkomu hans á knattspyrnuvöllinn.

Eriksen fór í hjartastopp í landsleik með Danmörku síðasta sumar og sneri aftur í landsliðið í síðustu viku þar sem hann gerði sér lítið fyrir og skoraði í tveimur vináttulandsleikjum, þar á meðal á Parken í Kaupmannahöfn þar sem atvikið óhugnanlega átti sér stað í leik gegn Finnlandi á EM í fyrra.

Þá hefur leikið hann frábærlega með Brentford í ensku úrvalsdeildinni á árinu og skoraði til að mynda í stórkostlegum 4:1-útisigri á Chelsea um helgina.

„Þetta er bara nákvæmlega það sem gerist oft þegar menn lenda í miklu mótlæti, og ekki bara mótlæti, hann var við dauðans dyr. Þá fer maður svolítið að endurskoða hlutina. Ég held að það sé nákvæmlega það sem Christian Eriksen og hans fjölskylda, nánustu vinir og vandamenn hafa farið í.

„Ég er fótboltamaður og ég er ógeðslega góður í því sem ég er að gera, hvernig væri bara að njóta þess svolítið?“ Fara í þann gír.

Það eru forréttindi að geta spilað þennan leik og ég held að það sé svolítið tilfinningin sem er að drífa hann áfram og það er stórkostlegt að fylgjast með honum. Hann er bara að njóta þess að spila, hann er að spila algjörlega sinn besta leik, innan sem utan vallar,“ sagði Margrét Lára.

Umræðuna um Eriksen í Vellinum má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert