Sungu Hillsborough-níðsöngva stuttu eftir virðingarvottinn

Stuðningsmenn Liverpool fagna sínum mönnum í gærkvöldi.
Stuðningsmenn Liverpool fagna sínum mönnum í gærkvöldi. AFP/Oli Scarff

Stuðningsmenn Manchester United urðu sér til skammar á Anfield í Liverpool í gærkvöldi þegar erkifjendurnir áttust við í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla.

Á sjöundu mínútu leiksins risu allir áhorfendur á leikvanginum, bæði stuðningsmenn Liverpool og Man. United, úr sætum sínum og klöppuðu til stuðnings Cristiano Ronaldo, sem tilkynnti á mánudag að nýfæddur sonur hans og Georginu Rodríguez hefði fallið frá. Af þeim sökum lék hann ekki með liðinu í 0:4-tapi gærkvöldsins.

Skömmu síðar sungu stuðningsmenn Man. United hins vegar hástöfum: „The Sun hafði rétt fyrir sér, þið eruð morðingjar.“

Þessi níðsöngur snýr að Hillsborough-slysinu árið 1989 þar sem 97 stuðningsmenn Liverpool týndu lífinu.

Götublaðið The Sun kenndi stuðningsmönnunum sjálfum um slysið strax í kjölfarið auk þess sem lögregluyfirvöld og fjöldi stjórnmálamanna tóku í sama streng. Samkvæmt réttarúrskurði árið 2016 áttu stuðningsmenn Liverpool þó enga sök á slysinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert