Pulisic hetja Chelsea – Burnley sendi Everton í fallsæti

Christian Pulisic fagnar sigurmarki sínu í dag.
Christian Pulisic fagnar sigurmarki sínu í dag. AFP/Justin Tallis

Chelsea marði West Ham þegar þegar liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag. Á sama tíma kom Burnley sér upp úr fallsæti með sigri á Úlfunum og Brighton og Southampton skildu jöfn í fjörugum leik.

Undir lok leiks Chelsea og Hamranna, á 87. mínútu, fengu heimamenn gullið tækifæri til þess að tryggja sér sigur. Craig Dawson braut þá á Romelu Lukaku innan vítateigs sem aftasti maður og fékk fyrir vikið rautt spjald eftir að atvikið hafði verið skoðað í VAR-skjánum.

Jorginho steig á vítapunktinn en Lukasz Fabianski varði afleita spyrnu hans auðveldlega.

Það kom þó ekki að sök þar sem varamaðurinn Christian Pulisic tryggði Chelsea 1:0-sigur með marki á 90. mínútu eftir góða fyrirgjöf Marcos Alonso.

Burnley vann þá frækinn 1:0-sigur á Wolverhampton Wanderers.

Sigurmarkið skoraði tékkneski framherjinn Matej Vydra eftir rétt rúmlega klukkutíma leik.

Mesta fjörið var hins vegar á suðurströndinni þar sem Brighton & Hove Albion og Southampton gerðu 2:2-jafntefli.

Danny Welbeck kom heimamönnum í Brighton í forystu strax á annarri mínútu.

Skömmu fyrir leikhlé varð Mohamed Salisu, varnarmaður Southampton, fyrir því óláni að skora sjálfsmark og staðan því orðin 2:0.

James Ward-Prowse náði að laga stöðuna fyrir Southampton í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar hann skoraði enn eitt mark sitt á tímabilinu beint úr aukaspyrnu.

Ward-Prowse var svo aftur á ferðinni á 54. mínútu og jafnaði metin fyrir Dýrlingana.

Á 79. mínútu virtist Pascal Gross vera að tryggja Brighton sigur þegar hann skoraði með góðu skoti rétt utan vítateigs.

VAR dæmdi þó markið af vegna rangstöðu, sem var afskaplega tæp, og niðurstaðan því jafntefli.

mbl.is