Bjarni: Hann er frábær í fótbolta

Norski töframaðurinn Martin Ödegaard, sóknartengiliður Arsenal, var til umræðu í Vellinum á Símanum Sport í gærkvöldi eftir frábæra frammistöðu hans gegn Manchester United á laugardag og sömuleiðis í miðri viku gegn Chelsea.

Arsenal vann báða þessa leiki og skoraði alls sjö mörk í þeim.

Bjarni Þór Viðarsson sparkspekingur fór aðeins yfir það hvað gerir Norðmanninn að jafn færum knattspyrnumanni og hann sannarlega er.

„Eins og í leiknum gegn Chelsea, hvernig hann tengdi leik Arsenal og hvernig hann hefur verið að gera það. Menn hafa kannski verið að tala um að það vanti aðeins meira frá honum en hann er gífurlega mikilvægur fyrir þetta Arsenal-lið.

Hann er bara frábær í fótbolta, fljótur að koma boltanum frá sér. Hann er alltaf með rétta þyngd í sendingunum og það er virkilega mikilvægt fyrir það hvernig Arsenal og [Mikel] Arteta vill spila. Hvernig hann býr til pláss, hvernig hann finnur sér pláss,“ sagði Bjarni Þór.

„Hann finnur sér alltaf pláss, hann er alltaf búinn að hugsa einu skrefi á undan hinum,“ bætti Eiður Smári Guðjohnsen sparkspekingur við.

Umræðuna um Ödegaard og nánari umræðu um Arsenal má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert