Eiður: Jesus nokkuð slakur eftir svona helgi

Gabriel Jesus, sóknarmaður Manchester City, var til umræðu í Vellinum á Símanum Sport í gærkvöldi eftir að hann skoraði fernu í 5:1-sigri á Watford á laugardag.

Degi fyrir laugardaginn var Jesus í enskum fjölmiðlum orðaður við félagaskipti til Arsenal en Eiður Smári Guðjohnsen sagði frammistöðu helgarinnar ansi líklega til þess að minna á hversu nothæfur hann er fyrir lærisveina Peps Guardiola þó City sé þráfaldlega orðað við norska markahrókinn Erling Braut Haaland.

„Hann er ekki á slæmum stað. Ég er nokkuð viss um að eftir að þú ert búinn að skora fjögur mörk, eftir helgina hugsarðu: „Heyrðu, kannski þarf ég ekkert að vera að spá svona mikið í framtíðinni.“ Að maður sé bara nokkuð slakur eftir svona helgi,“ sagði Eiður Smári.

„Ég held að Pep Guardiola vilji nú ekki missa hann,“ bætti Bjarni Þór Viðarsson við.

Umræðuna um Manchester City í Vellinum í gærkvöldi má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

mbl.is