Liverpool á toppinn en tapaði stigum

Luis Díaz fagnar jöfnunarmarkinu.
Luis Díaz fagnar jöfnunarmarkinu. AFP/Paul Ellis

Liverpool og Tottenham gerðu 1:1 jafntefli í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni á Anfield í kvöld. Það var Heung-Min Son sem kom Tottenham yfir á 57. mínútu leiksins en Luis Diaz jafnaði metin fyrir heimamenn á 69. mínútu leiksins.

Þessi úrslit þýða að Liverpool er komið í toppsætið í bili á markatölu í ensku úrvalsdeildinni en Manchester City leikur gegn Newcastle á morgun og getur þá náð toppsætinu aftur með jafntefli eða sigri. Tottenham er núna einu stigi á eftir Arsenal í baráttunni um fjórða sætið en Arsenal á leik til góða á Tottenham.

Liverpool byrjaði betur á Anfield í kvöld en leikmenn Tottenham vörðust mjög vel og voru sóknarmenn Liverpool ekki að finna glufur á vörn gestanna. Þegar Tottenham náði að beita sínum hárbeittu skyndisóknum voru þeir mjög hættulegir og einmitt úr einni slíkri skyndisókn á 12. mínútu komst Harry Kane í gott færi en Jordan Henderson náði að henda sér fyrir skot hans. Það var helst í föstum leikatriðum sem Liverpool var að koma sér í færi og tvívegis var Virgin van Dijk nálægt því að koma boltanum í netið. Á 22. mínútu átti hann skalla framhjá og svo á 39. mínútu fór skalli hans í þverslánna. Besta færi Tottenham í fyrri hálfleik kom svo á 42. minútu en eftir góða skyndisókn fékk Pierre-Emile Höjbjerg boltann rétt fyrir utan teiginn en skot hans fór í stöngina.

Í seinni hálfleik héldu leikmenn Liverpool áfram að sækja og leikmenn Tottenham að verjast vel. Skyndisóknir Tottenham voru aftur á móti mjög hættulegar og úr einni slíkri skoraði Heung-Min Son á 57. minútu. Harry Kane var með góða sendingu á Ryan Sessegnon og hann setti boltann fyrir á Heung-Min Son sem setti boltann í netið af stuttu færi. Þetta mark virtist slá leikmenn Liverpool útaf laginu og næstu mínútur voru leikmenn Tottenham líklegri að bæta við marki en Liverpool að jafna.

En svo tók Liverpool aftur yfir leikinn og á 69. mínútu leiksins náði Luis Diaz að plata nokkra leikmenn Tottenham og kom sér í fínt skotfæri og lét vaða og fór skot hans í varnarmann Tottenham og inn. Tottenham hélt áfram að reyna að verjast eftir markið frá Diaz en áfram varnarmúr liðsins virkilega þéttur og sóknarmenn Liverpool náðu ekki að koma sér í góð færi. Í lok leiksins voru leikmenn Liverpool byrjaðir að reyna háar sendingar inn í teig Tottenham en allar þær tilraunir skölluðu varnarmenn Tottenham frá. Það munaði samt minnstu að leikmenn Tottenham hefðu stolið sigrinum á lokamínútu leiksins þegar að Harry Winks átti sendingu á Pierre-Emile Höjbjerg sem reyndi að skalla boltann á Harry Kane en varnarmenn Liverpool náðu að bjarga þessu á síðustu stundu.

Leikmenn Liverpool fá ekki mikla hvíld en þeir leika gegn Aston Villa á Villa Park í ensku úrvalsdeildinni á þriðjudaginn en Tottenham spilar gríðarlega mikilvægan leik í baráttunni um fjórða sætið við Arsenal á Tottenham Stadium á fimmtudagskvöldið.

Liverpool 1:1 Tottenham opna loka
90. mín. Mo Salah (Liverpool) á skot sem er varið
mbl.is