Kloppstýran á Anfield

Ulla Sandrock mætir reglulega á völlinn og hvetur sinn mann …
Ulla Sandrock mætir reglulega á völlinn og hvetur sinn mann og sína menn til dáða. Enda alþýðleg til orðs og æðis. AFP/Paul ELLIS

Ulla Sandrock veitti yl og lotningu inn í hjörtu áhangenda knattspyrnufélagsins Liverpool þegar hún hvatti bónda sinn, Jürgen Klopp, til að framlengja samning sinn við Rauða herinn. Hver er þessi ákveðna kona?

Á löngum ferli hef ég kynnst mörgum gerðum af rokki. Sandrock heyrði ég þó fyrst talað um fyrir fáeinum dögum. Það er að vísu ekki tónlistarstefna (þótt það væri geggjað og ábyggilega grjóthart) heldur ættarnafn þýskrar konu sem óvænt og án fyrirvara skaut upp kollinum í sparkumræðu álfunnar. Við erum sumsé að tala um eiginkonu Jürgens Klopps, knattspyrnustjóra enska úrvalsdeildarfélagsins Liverpool, sem komst í fréttirnar þegar bóndi hennar upplýsti að hún hefði ráðið mestu um það að hann hefði ákveðið að framlengja samning sinn við Rauða herinn til ársins 2026. Sjálfur hafði hann ætlað að láta staðar numið þegar gamli samningurinn rynni út 2024 en þegar þau hjónakornin tóku samtalið við eldhúsborðið var Sandrock, sem skírð var því ágæta nafni Ulla, viss í sinni sök. Henni liði vel í bítlaborginni og vildi endilega lengja dvölina í hinn endann.

„Ulla vill vera áfram,“ sagði Klopp í myndbandi á vefsíðu Liverpool. „Hvað gerir góður eiginmaður þegar frúin vill vera um kyrrt? Hann verður um kyrrt. Mikilvægasti samningurinn sem ég hef gert um dagana er við Ullu.“

Málið dautt.

Bera hana á höndum sér

Jürgen Klopp er ígildi skurðgoðs í Liverpool, alltént í rauða hluta borgarinnar. Og til að fyrirbyggja allan misskilning þá er ég að vísa í búning Liverpool-liðsins. Skammist ykkar fyrir að hugsa um eitthvað annað! Skyldi því engan undra að áhangendur liðsins beri Ullu Sandrock nú á höndum sér. Þeir hafa til dæmis breytt texta lags sem upphaflega var tileinkað Klopp Sandrock til heiðurs.

Það hljómar nú svo:

I’m so glad that Ulla loves scouse,
I’m so glad that she’s not moving house. 
Ulla said to Jurg you know,
she doesn’t want to leave you know,
I’m in love with her and I feel fine.

Erum við nokkuð að þýða þetta? Það yrði bara kauðalegt.

Sandrock, sem er 47 ára, er seinni eiginkona Klopps. Einkason sinn, Marc, á hann með fyrri konu sinni, Sabine Klopp, en hann fæddist árið 1988. Sandrock á líka son frá fyrra sambandi, Dennis að nafni.

Hermt er að Klopp og Sandrock hafi kynnst á knæpu á hinni víðfrægu bjórhátíð Oktoberfest í München, þar sem hún vann. Í enskum miðlum kemur fram að þau hafi hafið sambúð aðeins þremur dögum síðar. Heilmikið rokk í því. Þau gengu í heilagt hjónaband í desember 2005. Klopp var á þeim tíma knattspyrnustjóri Mainz 05 í Þýskalandi. Hans fyrsta starf af því tagi.

Sandrock hefur starfað sem félagsráðgjafi og um tíma kenndi hún í þýskum skóla í Nairobi. Í dag er hún barnabókahöfundur. Knattspyrna vegur þar þungt en eftir hana liggja bækur eins og Tom and the Magic Football og Elli and Pit: Who is the goalkeeper of Mainz 05? Sú fyrrnefnda fjallar um 11 ára pilt sem finnur töfraknött og verður eftir það ómótstæðilegur í fótbolta. Þarf ekki að gefa þessa bók út hér á landi?

Fékk olnboga í andlitið

Hún hefur einnig gefið sig af þunga að góðgerðarstarfi bæði í Evrópu og Afríku og er meira að segja kölluð „forsetafrú Búndeslígunnar“ í Þýskalandi, svo rammt hefur kveðið að framtaki hennar. Það rímar við hugsjónir Klopps sem skilgreinir sig sem félagshyggjumann og vill að öllu fólki vegni vel – þvert á línuna.

Jürgen Klopp brosir breitt þessa dagana enda búinn að taka …
Jürgen Klopp brosir breitt þessa dagana enda búinn að taka stóra ákvörðun – að höfðu samráði við hana Ullu sína. AFP


Í enskum miðlum kemur fram að Sandrock sæki stundum leiki Liverpool; það sást til dæmis til hennar í stúkunni þegar Rauði herinn glímdi við Manchester City á útivelli á dögunum. Það er sagt hafa verið í óþökk Klopps en hún á að hafa fengið olnboga óvart í andlitið þegar hún var að fylgjast með sínum manni og sínum mönnum á Old Trafford.
Frægt var þegar Sandrock prílaði upp á öskutunnu til að hylla Klopp og Kloppunga á strætum Liverpool eftir meistaradeildarsigurinn 2019.

Sumsé kona við alþýðuskap.

Hrifinn af Bítlunum og Kiss

Svo skemmtilega vill til að Klopp er rokkelskur á fleiri vegu en komið hefur fram að hann hlusti mikið á rokktónlist. Frægt var þegar hann líkti leikstíl Liverpool-liðsins við „þungarokk“ í viðtali fyrir nokkrum árum. Hann var þá beðinn um að greina sinn stíl frá stíl Arsène Wengers, þáverandi stjóra Arsenal.

„Leikstíll hans minnir á sinfóníuhljómsveit en lagið er hljóðlátt. En ég er hrifnari af þungarokki. Vil hafa það hátt.“

Margir gáfu sér af því tilefni að hann væri málmhaus en stjórinn leiðrétti þann misskilning síðar í samtali við YouTube-rás Liverpool. Rokkið hans er víst aðeins mýkra.
„Móðir mín sagði að Bítlarnir væru besta hljómsveit í heimi, við hljótum að vera sammála um það. Ég er líka hrifinn af Genesis og kunni að meta Kiss. Aðalsöngvarinn var með gólfsíða tungu, það var galið!“

Ég held raunar að tungan hafi ekkert styst og enda þótt málmstigið sé vissulega ekki hátt í þessum böndum gátu þau og geta alveg rokkað feitt. Ætli þetta sé ekki bara sú tegund sem fer best í Klopparann – sandrokk?

Þessi grein birtist fyrst í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »