„Af hverju ættum við að hætta að trúa?“

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur ekki lagt árar í bát.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur ekki lagt árar í bát. AFP/Paul Ellis

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir liðið alls ekki búið að gefast upp í baráttunni um enska meistaratitilinn þrátt fyrir að Manchester City leiði með þremur stigum þegar þrjár umferðir eru óleiknar.

Á blaðamannafundi í dag var Klopp spurður hvort hann hafi sagt leikmönnum sínum að titilbaráttunni sé ekki lokið.

„Ég er ekki viss um að ég hafi sagt neitt á þeim nótum því það er augljóst. Við eigum bæði eftir að spila þrjá leiki,“ svaraði hann þá.

„Það eina sem ég hugsa um er hvernig við förum að því að vinna leikina sem við eigum eftir. Af hverju ættum við að hætta að trúa?“ bætti Klopp við.

Liverpool heimsækir Steven Gerrard og lærisveina hans í Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld.

mbl.is